Einar Áskell brúðuleikhús

Ritað 12.03.2009.

altBernd Ogrodnik kom með brúðuleikhússýninguna sína, „Klókur ertu Einar Áskell" til okkar á Hagaborg miðvikudaginn 11. mars. Við fengum að fylgjast með degi í lífi feðganna Einars Áskels og pabba hans. Börnin höfðu mjög gaman af. Ýmist mátti heyra saumnál detta eða skellihlátur á meðan sýningunni stóð. Eftir sýninguna fengu öll börnin að heilsa upp á Mjása sem er kötturinn hans Einars Áskels. Þetta virkilega skemmtileg og vel heppnuð sýning.

Dagur leikskólans haldinn hátíðlegur í annað sinn

Ritað 06.02.2009.

Dagur leikskólans er 6. febrúar en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara á Íslandi fyrstu samtök sín. Leikskólar um allt land halda daginn hátíðlegan með ýmsum hætti og í samvinnu kennara, foreldra, nemenda og skólayfirvalda.

Félag leikskólakennara, Heimili og skóli, menntamálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga tóku í fyrra höndum saman um að stuðla að því að beina athygli að leikskólanum og því góða og fjölbreytta mennta- og uppeldisstarfi sem þar fer fram. Ákveðið var að halda dag leikskólans 6. febrúar ár hvert en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín sem fyrr er getið. Markmiðið með deginum er að gera þegna samfélagsins meðvitaðri um þýðingu leikskólastarfs fyrir börn, styrkja jákvæða ímynd leikskólakennslu og auka áhuga fólks á því að starfa í leikskólum. (tekið af vefsíðunni http://www.rvk.is/desktopdefault.aspx/tabid-43/)

Við hér á Hagaborginni fórum í skrúðgöngu um hverfið í morgun í tilefni dagsins. Komið var við í þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Vesturgarði þar sem börnin sungu fyrir starfsfólkið.

Þorrablót

Ritað 04.02.2009.

Síðast liðinn föstudag var haldið þorrablót á Hagaborg. Börnin bjuggu til höfuðföt og fóru í salinn og sungu þorralög. Í hádegismatinn var þorramatur í boði. Sumt þótti gott en annað svolítið súrt. Flest smökkuðu hákarlinn og báðu nokkrir um meira.