Fréttir frá Álfalandi

Afmæli og sumar framundan

Ritað 11.05.2015.

Ingólfur og fleiri ÁlfarNú er komið að síðasta pistli vetrarins og síðari önninni senn að ljúka. Við höfum átt mjög ánægjulegan og viðburðarríkan vetur saman á Álfalandi. Á deildinni okkar höfum við haft að leiðarljósi að byggju upp traust, umönnun og hlýju, auk leiksins þar sem umhyggja fyrir barninu hefur verið í forgrunni. Allar stundir skólans eru jafn mikilvægar og felast í að mæta hverju og einu barni þar sem það er statt. Jafnt líkamlega sem vitsmunalega og t.d. eru bleiuskiptastundir jafn mikilvægar og hópastarfið, hlýja, hrós, faðmlag og hlýlegt viðmót. Í leikskólanum leggjum við mikla áherslu á vináttu, virðingu og hlýju enda eru þau gildi leikskólans.

Hvaða reynslu býr barnið yfir? Hvernig getum við lært að skilja og túlka hegðun sem höfðar til sjálfssprottins náms barnsins. Börnin okkar hafa verið að þroska tungumál sitt í gegnum reynslu, við hugtök sem tengjast hæfileikum þeirra og getu á hverjum tíma. Við höfum reynt að stuðla að vináttu í samskiptum og ef þau geta ekki tjáð hugmyndir sínar, skoðanir eða deilt reynslu sinni með orðum þá nota þau gjarnan líkamstjáningu til þess.

Í vetur hafa börnin á Álfalandi þroskast ákaflega fallega og hef ég ekki fundið fyrir öðru en væntumþykju barnanna á milli, sem og fullorðinna. Börnin koma einlæg og glöð í leikskólann á morgnanna og hlakka til dagsins. Við kennararnir höfum lært svo margt fallegt af börnunum ykkar sem við búum að og óskum við þeim börnum sem fara á aðrar deildir velfarnaðar. Ég þakka fyrir frábær samskipti við ykkur foreldra í vetur og óska ykkur gleðilegs sumars, með þakklæti fyrir veturinn. Við héldum upp á þriggja ára afmæli hans Ingólfs og áttum skemmtilegan afmælisdag síðasta mánudag.

Með bestu kveðju til ykkar allra, Halla, Adda, Natallia og Tui.

Stafurinn „D“

Ritað 26.03.2015.

Listamenn á ÁlfalandiVikupistill Álfalands 20. mars 2015

Vikan á Álfalandi hefur gengið ágætlega bæði hvað varðar inni- og útistörf. Við kynnum nýjan staf í byrjun hverrar viku og á mánudaginn verðar það stafurinn D. Við syngjum lítinn lagstúf þar sem stafurinn er í aðalhlutverki, börnin sýna þessu ferli mikinn áhuga, því textinn sem fylgir hverjum staf höfðar til þeirra. Hann er bæði fyndinn og skemmtilegur. Síðast liðinn miðvikudag áttum við mjög ánægjulega samverustund, þegar fjölskyldur barna okkar mættu í leikskólann. Við nutum yndislegra veitinga sem foreldrar buðu upp á. Kærar þakkir fyrir það.

Í morgun föstudag vorum við á Álfalandi að leika okkur inni í litlum hópum á meðan sólmyrkvinn gekk yfir.

Með bestu kveðju til ykkar allra,

Halla, Sara, Adda og Fríða.

Snjórinn tekinn inn þegar veðrið er vont

Ritað 16.03.2015.

Snjór í kerinuÞað má segja að mánudagurinn, þegar Einar Áskell kom í heimsókn í leikskólann, hafi verið það áhugaverðasta í vikunni. Börnin skemmtu sér mjög vel á frábærri sýningu sem haldin var í salnum okkar. Vikan hefur verið hefðbundin, en veðráttan slík að við höfum ekki komist jafnmikið út og við hefðum viljað. Snjórinn er spennandi fyrirbæri, svo við náðum okkur í snjó í ker inn til okkar þar sem börnin smökkuðu, þreifuðu og horfðu á snjóinn bráðna og verða að vatni. Einnig settum við fullt af leikföngum sem hægt var að leika með í kerið, s.s. kubba, bíla o.s.frv. (Sjá myndir). Við þökkum fyrir vikuna og hlökkum til að hitta ykkur á fjölskyldufjörinu nk. miðvikudag.

Með bestu kveðju til ykkar allra,

Halla, Sara, Adda, Fríða og Daníel.

Afmæli og nemi

Ritað 09.03.2015.

WendyVikupistill Álfalands 6. mars 2015

Vikan sem er að líða hefur verið hefðbundin, nema mánudagurinn en þá héldum við upp á þriggja ára afmæli Wendy okkar. Wendy bauð okkur upp á ávaxtaveitingar sem börnin elska. Í þessari viku bættist liðsauki í hópinn okkar, þ.e. nemi frá H.Í sem verður hjá okkur næstu tvær vikurnar. Hann heitir Daníel Steingrímsson og stundar nám í menntunarfræðum leikskóla, sem er tveggja ára nám á meistarastigi. Daníel er að nýta tækifæri sem upp koma í daglegu starfi til að kynnast börnunum og fá innsýn í nám þeirra og áhugasvið.

Við höfum verið meira inni undanfarna daga en finnum hve útþráin er mikil, þ.e. að þörfin fyrir hreyfingu og orku þeirra sé fullnægt. Í staðin hafa verið í boði allskonar viðfangsefni sem þeim hafa fundist spennandi, t.d. erum við að læra einn staf í viku og í kjölfarið lært litla söngva um stafinn. A var til umfjöllunar í liðinni viku og voru sungin lög og vísur um hann. Þetta er fyrsti áfanginn í þróunarverkefni skólans – Leikur að læra -  og finnum við fyrir miklum áhuga barnanna. Verkefnið verður svo skemmtilegt í áframhaldi næsta vetur.

Með bestu kveðju til ykkar allra,

Halla, Sara, Adda, Fríða og Daníel.

Búningadagur og konukaffi

Ritað 03.03.2015.

Álfar í búningumVikupistill Álfalands 20. febrúar 2015

Í vikunni 16.2 – 20.2 gerðum við okkar besta til að eiga ánægjulegar samverustundir. Dagarnir þrír, bollu-, sprengi- og öskudagur voru vel heppnaðir. Margar spurningar sem tengjast dögunum vöknuðu hjá börnunum og mörg ný orð voru sögð. Ekki fór þó á milli mála að búningadagurinn á öskudag var vinsælasti dagurinn hjá börnunum okkar. Þá fórum við á milli allra deilda í Hagaborg og allir hittust, frá yngstu börnunum til þeirra elstu. Dagurinn var mikið ævintýri og gaman fyrir okkar yngstu nemendur.

Í þessari viku var konukaffi í tilefni af konudeginum. Börnin voru mjög stolt og gleðin leyndi sér ekki. Eftir boðið vildu allir segja frá ömmum sínum og mömmum sem fóru til vinnu sinnar. Öll börnin fengu að tjá sig í samverustundinni og ríkti mikið stolt í hópnum. Það þarf ekki mikið til að gleðja og brjóta upp þetta hefðbundna. Næstu daga unnum við mikið innivið, þar sem veðurfarið bauð ekki upp á annað. Við teiknuðum og máluðum fallegar myndir sem eru til sýnis á deildinni. Okkur finnst börnin taka mikinn þroskakipp þessar vikurnar og eru þau farin að sýna meiri samleik. Félagsþroski þeirra er því sífellt að aukast, sem er svo gaman að fylgjast með.

Með bestu kveðju til ykkar allra,

Halla, Sara, Adda og Fríða.