Leikskólinn Hagaborg

Hagaborg

Fornhaga 8, sími 551-0268. Leikskólastjóri er Ólafur Bjarkason.

Hagaborg er fimm deilda leikskóli á tveimur hæðum þar sem dvelja allt að 100 börn samtímis á aldrinum 1-6 ára. Útisvæðið við leikskólann er rúmgott og gefur ágætt svigrúm til fjölbreyttra leikja. Einnig höfum við góðan íþróttasal á efri hæðinni. Næstu nágrannar eru Melaskóli, Hagaskóli, Neskirkja, Háskólabíó og Hótel Saga. 

Hagaborg er einn af eldri leikskólum Reykjavíkur, tók til starfa árið 1960, þá sem fjögurra deilda dagheimili. Hjá okkur fer fram alhliða leikskólastarf með áherslu á hreyfingu, málrækt og frjálsan leik. Við viljum að lífið í leikskólanum okkar einkennist af vináttu, trausti og  hlýju.  

Húsið, sál þess og saga
Barnavinafélagið Sumargjöf byggði húsið og setti þar á stofn fjögurra deilda dagheimili árið 1960. Sú starfsemi var einungis á neðri hæð hússins, en á efri hæðinni hefur margs konar starfsemi farið fram sem þó tengist flest börnum á einhvern hátt. Sumargjöf var þar með skrifstofu sína og fundarsal og þar var Ljósastofa Hvíta bandsins í nokkur ár og um tíma íbúð fyrir forstöðukonu dagheimilisins. Skrifstofur Dagvistar barna voru þar einnig þar til flutt var í Hafnarhúsið. Starfsfólk skrifstofunnar gat fengið hádegismat í Hagaborg. Eftir að skrifstofa Dagvistar barna flutti í Hafnarhúsið var efri hæðinni breytt töluvert og sett á stofn skóladagheimili sem hét Hagakot, sem síðar hýsti skólasel Melaskóla.

Reykjavíkurborg keypti húsið af Sumargjöf 1997 og um tíma ríkti nokkur óvissa um framtíð þess. Þar kom þó að ákveðið var að Hagaborg fengi allt húsið fyrir sína starfsemi. Árið 1999 var hafist handa við gagngerar endurbætur sem lauk árið 2000 og síðan þá hefur leikskólinn verið 5 deilda á báðum hæðum hússins.